Það þarf ekki alltaf að fara langt eða gera mikið til að gera dag að litlu ævintýri. Við hjónin ásamt dóttur okkar Guðrúnu og hennar fjölskyldu fórum það sem við köllum austur fyrir fjall að Hlíðarhaga við Eilífsvötn. Þar er gangnakofi og fjallalækur, við höfum farið þarna nokkrum sinnum áður og stundum gist í tjaldi en ekki nema einu sinni í kofanum, hann er orðinn heldur óhrjálegur. (Veitti ekki af því að setja nýjar dýnur og bera á hann. ) Þegar við vorum búin að taka ákvörðun um að drífa okkur af stað um hádegisbilið skellti ég í pönnsur og bóndinn í samlokur, kleinur voru til og eitthvað af drykkjarfernum fyrir börnin. Jú við höfðum líka kaffi á brúsa, alveg ómissandi í svona ferð. Á leiðinni þarna inn eftir er varða sem kölluð er „ Gústi “ þar á alltaf að stoppa og kasta steini í Gústa. Það er nú synd að segja að þetta sé þægileg bílferð fyrir innyflin ... en það er bara partur af þessu. Þegar á leiðarenda var komið voru krakkarnir ekki lengi að fækka fötum og hlaupa að læknum til að vaða og sulla enda veðrið gott. Svona lækir hafa ótrúlegt aðdráttarafl. Það var breitt úr teppum og slappað af, dregnar fram gamlar gestabækur úr kofanum og hlegið af færslu sem undirrituð skrifaði fyrir margt löngu. Brynja litla Sif sem er tíu mánaða var ekkert smá fyndin þegar hún uppgötvaði kindur sem voru þarna að bíta, fór að gefa frá sér allskonar hljóð sem við höfðum ekki heyrt áður. Veitingarnar okkar runnu ljúflega niður, það er eitthvað gott við upprúllaðar pönnukökur og svona nesti. Stærri krakkarnir og Guðrún fóru upp í gilið sem lækurinn rennur úr og hefur hún örugglega sagt þeim frá dauðu rollunni sem hún og Stefán bróðir hennar fundu þar uppi þegar þau voru lítil og ég kallaði marineraða í gestabókinni forðum. Aðeins var farið í fótbolta enda kjörið þarna á flötunum. Í bakaleiðinni spurði Andrea 8. ára hvort það ætti að stoppa aftur á-Gústa eða hjá-Gústa, en við töldum að þetta hefði verið gott í fyrra sinnið, nóg af grjóti komið í kallinn. Heimferðin gekk bærilega og við komin heim um sexleitið.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | 24.7.2008 | 01:26 (breytt kl. 16:58) | Facebook
Tenglar
Mínir tenglar
Tónlist
Ýmislegt
Gestir
Tónlist
- A Glimpse in Time - Gulli Falk ft. Diddú and Stefán Jakobsson
-
Tónlist
-
Elska þig enn. Stefán Jakobsson
youtube
Athugasemdir
Oh svo gaman að lesa hjá þér Edda mín....við hefðum sko alveg verið meira en til í að koma með í þennan bíltúr...svona ferðir eru alltaf svo skemmtilegar...En nú erum við að koma eftir bara 2 daga og verðum í 2 vikur...eigum við ekki að stefna á að gera eitthvað skemmtilegt öll saman? svo margt fallegt og skemmtilegt sem hægt er að gera og það er allt í nálægð við okkur....
Hlakka til að koma HEIM;)
knús á tengdamömmuna mína sem er alveg frábær bloggari;)
hilda (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 11:58
Takk elskan mín, það hefði auðvitað verið meira gaman ef þið hefðuð getað komið með og ég held það sé ekki spurning hvort við gerum eitthvað skemmtilegt saman.
Ég hlakka líka svooo til að fá ykkur til mín ! Knús til þín
(netauga), 24.7.2008 kl. 14:21
Nei sko...mikið er þetta nú skemmtilegt! Bæti þessari síðu við á bloggrúntinn minn
dóttirin (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 18:35
Naujh! Mín bara komin með þetta líka fína blogg! Ég fylgist með héðan í frá.
Tinna Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 21:29
Það er naumast... allir í bloggi! Fínt að lesa vel marineraðar sögur.
Bróðurinn í Villta Vestrinu (IP-tala skráð) 26.7.2008 kl. 02:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.