Mótmælum niðurskurði á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga !!!

Gísli G. Auðunsson: Vituð þér enn – eða hvað?

„Byggð í landinu verður ekki viðhaldið með atvinnusköpun á vegum hins opinbera“. Svo segir í leiðara Fréttablaðsins laugardaginn 9.október. Í huga höfundar, Ólafs Stephensens (ÓS), virðist opinber þjónusta út á landsbyggðinni vera óþörf og flokkast undir „atvinnusköpun á vegum hins opinbera“. Í kjölfarið fylgja svo hugleiðingar um „að ekki sé hægt að dreifa hátækni og sérfræðingum um landið, heldur verði að byggja slíka þjónustu upp á fáum stöðum - - “ og vitnar þar í orð heilbrigðisráðherra.

 

Ég er í sjálfu sér ekkert undrandi á þessu viðhorfi ÓS sem byggist á sorglegri, en að sumu leiti skiljanlegri fáfræði. En hitt veldur mér ekki aðeins undrun, heldur hreinum hrolli, að Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra skuli láta slík ummæli frá sér fara. Að hann, sjálfur ráðherra heilbrigðismála skuli ekki þekkja betur til þessa málaflokks.

ÓS tekur Húsvíkinga sérstaklega fyrir og segir þá í góðri stöðu til að flytja sjúklinga með hraði á stórt sjúkrahús, sem er rétt undir flestum kringumstæðum. En það er bara alls ekki það sem málið snýst um og kem ég þar að fáfræðinni um starfsemi litlu sjúkrahúsanna á landsbyggðinni. Þessi sjúkrahús eru með mjög takmarkaða starfsemi, flokkast undir það sem kallast „primary care hospitals“ á heimsmálinu, mættu kallast fyrsta stigs sjúkrahús á okkar tungu.  En eftir umræðunni mætti ætla að þessi sjúkrahús væru jafnvel með sömu starfsemi og útbúnað og Sjúkrahúsið á Akureyri. Og það er satt að segja makalaust að heilbrigðisráðherrann virðist ekki vita betur og talar um að „ ekki sé hægt að dreifa hátækni og sérfræðingum um landið“.  Og Björn Valur Gíslason, sem talað hefur fyrir þessum tillögum fjárlaganefndar, veit heldur ekki betur.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40 frá 27.mars 2007 og reglugerð um heilbrigðisumdæmi, sem sett er samkv. þeim, er talið upp hvar á landinu skulu vera „heilbrigðisstofnanir“ og hvaða þjónustu þær eiga að veita. (Sjá reglug. um heilbrigðisumdæmi nr. 785/2007begin_of_the_skype_highlighting              785/2007      end_of_the_skype_highlighting, I kafli, 2. gr.). En þar segir „- - að þær veiti almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu. Með almennri heilbrigðisþjónustu er átt við heilsugæslu, þjónustu og hjúkrun á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmum stofnana og almenna sjúkrahúsþjónustu“. Þetta er sú þjónusta sem Heilbrigðisstofnun Þingeyinga (HÞ) ber að veita íbúum Þingeyjarsýslna samkv. gildandi lögum og reglugerðum, og því til fullnustu rekur hún sex heilsugæslustöðvar (á Húsavík, Laugum, Reykjahlíð, Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn), hjúkrunarheimili á Þórshöfn og almennt sjúkrahús á Húsavík.

Og hvað er þá almennt sjúkrahús?

Samkvæmt I.kafla laga um heilbrigðisþjónustu, grein 4:5, er almenn sjúkrahúsþjónusta þannig skilgreind: „Almennar lyflækningar, hjúkrun, slysamóttaka, endurhæfing og nauðsynleg stoðdeildarþjónusta“. Og það er nákvæmlega þessi þjónusta sem rekin er á HÞ.  Það er löngu búið að leggja niður fæðingardeild og skurðdeild er nánast fyrir bí, en þar leigir einn skurðlæknir aðstöðu. Hann er ekki á launum hjá sjúkrahúsinu.

Það er með endemum hvernig þetta mál hefur verið kynnt fyrir fjölmiðlum. Það er ekki annað að skilja en litlu sjúkrahúsin við heilbrigðisstofnanirnar séu hátæknisjúkrahús með sverm af sérfræðingum, nánast eins og sjúkrahúsið á Akureyri. En auðvitað er himin og haf þar á milli. Og það er hryggilegra en tárum taki að sjálfur heilbrigðisráðherrann virðist ekki betur upplýstur né heldur lykilmenn í fjárlaganefnd. Það sem þessi litlu sjúkrahús annast er fyrst og fremst almennar lyflækningar og hjúkrun við ýmsum bráðum sjúkdómum og nauðsynlegustu rannsóknir í því sambandi, umönnun og endurhæfing sjúklinga eftir aðgerðir á sérhæfðu sjúkrahúsunum, hjúkrun og önnur umönnun langlegu sjúklinga.

Hvergi nokkurs staðar í heiminum veit ég dæmi þess að þessi þjónusta sé ódýrari á sérhæfðum sjúkrahúsum (secondary care hospitals) hvað þá á háskólasjúkrahúsum (tertiary care hospitals). Þvert á móti er hún margfalt dýrari á hátæknisjúkrahúsunum. Og nú virðist eiga að flytja nánast alla þjónustu litlu sjúkrahúsanna yfir á hátæknisjúkrahúsin. Bíðum við, þarf ekki að spara á Íslandi? Og á Þá að leggja niður aðhlynningarsjúkrahúsin og flytja þjónustu þeirra yfir á hátæknisjúkrahúsin? Hvað er eiginlega í gangi?, eins og fólkið segir. Enn ein tilraunin til að koma allri sjúkrahúsþjónustu undir stóru sjúkrahúsin og síðan reynt að slá ryki í augu alþingismanna og almennings og sagt að það sé verið að spara, það sé verið að leggja niður óþarfa stofnanir. Og því miður virðast sumir alþingismenn hafa látið blekkjast.

Vituð þér enn – eða hvað?

Gísli G Auðunsson

Höfundur er læknir, sem starfað hefur í áratugi í Þingeyjarsýslum.

(Fékk þetta sent og ákvað að birta þetta hér )


mbl.is Húsvíkingar sækja um starf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvar vilja Húsvíkingar spara?

Þeir eiga að koma með tillögur til launsar en ekki væla yfir vanda sem allir standa frammi fyrir.

Sigurður (IP-tala skráð) 15.10.2010 kl. 14:51

2 identicon

Þingeyingar biðja bara um að fá að skera jafn mikið niður og aðrir, þ.e. 5%. Og þar fyrir utan munu núverandi tillögur hafa kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð - t.d. ef maður fer í liðskiptiaðgerð á hné á Akureyri og þarf svo í kjölfarið að liggja nokkra daga á sjúkrahúsi, hvort er þá ódýrara ða hann liggi t.d. 5 daga á stofnun þar sem dagurinn kostar yfir 100 þús eða á stofnun þar sem dagurinn kostar 55þús? Reikni nú hver fyrir sig!

Húsvíkingur (IP-tala skráð) 15.10.2010 kl. 15:22

3 Smámynd:  (netauga)

Heilbrigðisstofnunin á Húsavík og hennar stafsfólk hefur vissulega gert sitt ýtrasta til sparnaðar og hagræðingar og myndu örugglega gera betur ef tækifæri gefst ! Nú er allt að lamast, ríkisvaldið ætlar að sjá til þess.

Það er lítilsvirðandi að tala um væluskap í Húsvíkingum og íbúum Þingeyjarsýslna sem vilja standa vörð um starfsemi Heilbrigðisstofnunar Húsavíkur. Margfeldisáhrifin af þessum gjörningi eru ófyrirséð.

 Hér er getur verið um líf og dauða byggðarinnar að tefla á margan hátt !

Gerir þú þér grein fyrir því að með þessu verður fólk að ferðast allt að 250 km leið til Akureyrar gegnum sýslurnar tvær til að fá heilbrigðisþjóustu.

(netauga), 15.10.2010 kl. 16:14

4 Smámynd: Guðjón Emil Arngrímsson

Burt séð frá því hvað rætt er um, leiðist mér alveg óstjórnlega, þegar skribentar reyna að gera lítið úr orðum og gjörðum annarra með orðunum "veit ekki betur" eða "hefur ekki vit á" eða "sýnir fáfræði" eða það versta "hefur ekki þá menntun sem hæfir til þess að tjá sig um". Það má líkja því við þegar læknir segir við sjúkling sinn, "það er ekkert að þér". Reyndar upplifað þetta. Sami hrokagikkshátturinn. Reyndar er það þannig að þegar menn eru ekki með allt of góðan málaflokk á sínum snærum þá freistast menn til þess að grípa til svona fullyrðinga. Skoðaðu pólitíkusana. "þetta er ekki málefnalegt". Þá eru menn komnir í þrot og best að nota einhvern frasa sem á að slá menn í gólfið í umræðunni.

Reynið bara að útskýra fyrir fólki hvað er í gangi fyrir utan það að vera að skara eld að eigin köku. Við vitum hvaða hagsmuni fólk í heilbrigðisstétt hefur. En það er engin lausn fólgin í því að reyna að koma fólki í skilning um að þeir sem eru að skipuleggja endurreisn þjóðfélagsins séu "bjálfar sem ekkert vita, og ekki sé hægt að koma í skilning um neitt". Það er okkar hinna að meta það í framhaldi af umræðum eða bloggspjalli.

Kv. G.

Guðjón Emil Arngrímsson, 15.10.2010 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

(netauga)
 (netauga)

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Tónlist

Nýjustu myndir

  • ...ynd_1282031
  • ...235_1282030
  • ...bloggmynd

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband